Þá er sumarfríið nærri á enda og ég hef ekki gert neitt að þeirri handavinnu sem ég ætlaði mér. Það er kannski bara ágætt, ég kem bara tvíefld til baka, vonandi.
Við fjölskyldan skruppum til Svíþjóðar í 10 daga ferð. Tengdó var ótrúlega grand og bauð okkur í þessa ferð og við heimsóttum mágkonu mína og fjölskylduna hennar. Ótrúlega skemmtileg ferð. Ég verð að viðurkenna að ég var smá nervus með ferðina þar sem ég hef heyrt svolitlar horror sögur frá vinkonum mínum varðandi tengdafólk þeirra.
Ein lýsti því hvernig maðurinn hennar vildi aldrei fara neitt á staði með mömmu sinni þar sem annað fólk var. Hann til dæmis fór alltaf á matsölustaði í úthverfum þar sem mjög fáir voru á. En hann var svo hræddur um að mamma hans dytti í það og yrði þeim til skammar.
Önnur hefur líst því hversu dramatísk tengdafólk hennar er, en þar fá tárin að flakka ef bíllinn er ekki nógu þægilegur eða eitthvað er ekki eins og það á að vera. Þar sem fjölskyldan er stór þá er oft á tíðum einhver ósátt/ur og því miklar tilfinningar sem fá að blossa. En hún lætur það nú líka fylgja sögunni að það er allt frekar fljótt að róast. Ég bara veit ekki hvort ég gæti dílað við grátandi tengdó eða svila.
Þriðja getur lítið sem ekkert talað við sitt fólk, þar sem hún talar ekki tungumálið þeirra, en er ósjaldan vippað upp á eldhúsborð í nudd (hún kann samt vel að meta það)
og sú fjórða á já tengdafólkið hennar býr á annarri plánetu en hún og sögurnar eru alltaf svo furðulega að ég efast um að ég get gert þeim skil í nokkrum setningum.
En allavega tengdafólkið mitt er EKKI svona. Þetta var alveg frábær ferð, krakkarnir okkar féllust í faðma þegar þau hittust (svo líka aðeins ýtt í hvort annað) og allt gekk eins og smurð vél. Ég fékk aldrei nóg af neinum, nema kannski sjálfum mér en það þíðir lítið að kvarta, ég er stökk með mig sjálfa og tíminn flug áfram án allra handavinnu og án nokkurs bloggs.
En þessi póstur átti ekki að fjalla um ferðina sem slíka. Heldur frábært trix sem ég lærði áður en ég fór út.
Þannig er mál með vexti að þegar ég fór til USA í vetur í þrjár vikur og skildi karl, barn og plöntur heima þá þurrkaðist allt upp sem hafði einhvern grænan lit að bera. Karl og barn voru í góðum holdum enda átti ég ekki von á öðru en það fór öðrum sögum af blessuðum plöntunum.
Þær voru svo þurrar og dauðar að Sahara getur skammast sín fyrir lélegt þurka svæði og það besta var að karlinn tók ekkert eftir þessu, jafnvel þó svo að ég benti honum á stöðu mála. Allt fór í ruslið og það var byrjað upp á nýtt.
Eins og glöggir lesendur vita þá er ég
afar stolt af tómatplöntunni minn og vildi að hún lifði af þessa tíu daga. Þetta var rætt ögn á kaffistofunni og útkoman var sú að ég skellti vatni í flösku og hvolfdi henni svo í moldina.
Ég hafði ekki mikla trú á þessu en var svo sem til í að prufa, og viti menn, þetta svín virkar, þeir grænu tómatar sem á plöntunni voru eru nú orðnir fagur rauðir og nýjir grænir hafa litið dagsins ljós.
Myndin sem ég tók í flýti um morguninn sem ég fór er kannski alveg sú besta (bjórflaksa og tekið á símann). En þvílík snilld sem þetta trix er, ég bara varð að láta ykkur vita!