Pages

miðvikudagur, ágúst 31, 2011

Garn


Það færst orðið garn á fáránlegustu stöðum og oft bara alveg ágætlega fallegt garn. Um daginn rakst ég á þessar dokkur í Sösterne Grene. Ekkert ofsalega ódýrt, rúmlega 300 kr. dokkan, en fallegir eru litirnir og ég hlakka til að skapa eitthvað fallegt úr þessu djásni.

Hvað það verður veit enginn :) enda vandi um slíkt að spá. Er nokkuð farið að styttast til jóla?


þriðjudagur, ágúst 23, 2011

Notað og nýtt

Ég verð að viðurkenna að það eru ekki margar flíkur sem gera mig mjög hamingjusama á meðgöngunni. Þó dettur ein og ein flík í fangið á mér sem ég gæti hugsað mér að sleppa því algjörlega að þvo og vera bara stanslaust í henni. En þá grípur heilinn fram fyrir hendurnar á mér, líkt og hann gerir iðulega þegar ég sé mikið glys og glingur og segir við hjartað "nei hættu nú alveg stelpa, þetta gengur ekki!"

Einni svona flík nappaði ég af systur minni sem í sakleysi sínu lánaði mér hana á síðustu meðgöngu. Þetta er svartur kjóll sem einhverra hluta vegna er algjört æði! Ég dró hann fram um daginn og ætlaði í honum í vinnuna þegar heilinn tók öll völd:

- "Sko þetta gengur ekki!"
- "Hann eru upplitaður!"
- "Það eru göt hér og hér og hér!"
- "Og svo er hann teygður og togaður!"
- "Hann er slitinn og lykkjuföll sjást við saumana!"

Úff það var sama hvað ég reyndi að réttlæta það að fara í honum þá var það ekki hægt svo nú voru góð ráð dýr.

Ég fann gamlan Emami kjól sem ég hafði aldrei notað og nýtti efnið úr honum til að búa mér til nýjan "uppáhalds-kjól". Auðvita er nýi kjólinn ekki næstum eins og gamli kjólinn enda vantar öll götin, hann er ekki jafn mikið þveginn og liturinn er alveg ferskur. En hann gerir sitt gagn. Ég bætti að vísu við beltinu svona upp á puntið og er bara anskoti sátt við hann.

Alveg hoppandi glöð.

sunnudagur, ágúst 21, 2011

Fánaborg á Haðarstígnum

Það er víst alveg ljóst að ég er ekki sú eina sem hef gaman af því að kíkja á Haðarstíginn þegar það eru hátíðarhöld í miðbænum. Þetta er ein mest sjarmerandi gatan í 101 og einu sinni fannst mér gatan vera algjört leyndarmál. En sennilega er þetta ekkert rosalega vel geymt leyndarmál.

Ég er samt líka svo heppin að þekkja eina fjölskyldu sem býr við stíginn góða og á því oft leið þarna fram hjá, bæði þegar tilefni er til að fagna og líka bara til að kíkja í kaffi eða fara á róló með sætu bræðrunum þeim Benna og Bjarti.

En þegar það er fagnað hengja íbúarnir sæta fánaborgir þvert yfir göturnar í öllum regnboganslitum og ég mátti til með að lappa upp á fánaborgina hjá Grallara-fjölskyldunni. Ég sem er forfallin fánaborgar-aðdándi eins og sjá má hér og hér, dró fram efnisbútana og klippti, saumaði og hengdi á borða. Þau fengu því borða sem á stóð HAÐARSTÍGUR fyrir Menningarnótt og fánaborgin kom bara ágætlega út þvert yfir stíginn.

sunnudagur, ágúst 14, 2011

Barnateppi og ömmu ferningar úr afgöngum

Eftir að hafa heklað ógrynnin öll af kanínum og nokkra bangsa í gegnum tíðina átti ég heil ósköp af bómullargarns-afgöngum sem ég tímdi ekki að henda (af því að maður hendir ekki garni).


Fyrir ca tveimur árum byrjaði ég að hekla dúllur úr þessum afgöngum í anda Ömmu Ínu. Það er allt fallegt sem Amma Ína gerði og því var ég ekkert að velta fyrir mér hvað ég væri að gera, ein dúllan á fætur annarri varð til og í öllum regnboganslitum, þetta var gert í hjáverkum en ég hélt að ég kláraði eitt barna teppi á ögn styttri tíma en tveimur árum. Þar sem ég er með ólæknandi skrautfíkn þá bæti við smá glimmerþræði í hverja dúllu með því að hekla fastalykkju ramma í hverja dúllu, þó á mismunandi stað. Bara svona til að poppa þetta smá upp.

Það eru ófá börnin sem hafa átt að fá teppið í sængurgjöf, en þau eru nú flest komin á fermingaraldur... eða svona næstum því. Það var því ekki seinna vænna en að skvera teppið af og klára áður en að mitt kríli númer tvö kemur í heiminn. Sjö vikur til stefnu og ég get merkt við kassann á "to-do-listanum mínum" Eitt nýtt handunnið teppi fyrir krílið.


Ég nenni ómöguleg að pikka inn uppskriftina fyrir ömmu ferninga en það eru hægt er að sjá uppskrift af þeim á íslensku hjá einni sem kallar sig Handóð og svo er urmull af uppskriftum á ensku Granny squares. Það eina sem ég gerið sem er ólíkt flest öðrum uppskriftum er að ég gerði með skrautþráði einn hring og þá bara fastalykkjur, gerir teppið ögn poppaðra, en ekki eins mjúkt. Eins festi ég dúllurnar saman með loftlykjum eins og Amma Ína gerði en ekki með fastapinnum eins og flestar uppskriftir sýna. Fínt fyrir vagninn.

föstudagur, ágúst 12, 2011

Ef ég...

...teiknaði svona mynd á handabökin mín og sofnaði við tölvuna. Mundi einhver fatta það?


we heart it

Ég er svo sifjuð að ég hef bara ekki kynst öðru eins. En örvæntið ekki kæru vinir, það fer að koma færsla hingað inn fyrr en síðar. Ég er að ljúka við eitt djúsí verkefni sem hefur verið í vinnslu í lengri tíma.

miðvikudagur, ágúst 03, 2011

Hvernig er best að vökva plöntur á meðan maður er í burtu

Þá er sumarfríið nærri á enda og ég hef ekki gert neitt að þeirri handavinnu sem ég ætlaði mér. Það er kannski bara ágætt, ég kem bara tvíefld til baka, vonandi.

Við fjölskyldan skruppum til Svíþjóðar í 10 daga ferð. Tengdó var ótrúlega grand og bauð okkur í þessa ferð og við heimsóttum mágkonu mína og fjölskylduna hennar. Ótrúlega skemmtileg ferð. Ég verð að viðurkenna að ég var smá nervus með ferðina þar sem ég hef heyrt svolitlar horror sögur frá vinkonum mínum varðandi tengdafólk þeirra.

Ein lýsti því hvernig maðurinn hennar vildi aldrei fara neitt á staði með mömmu sinni þar sem annað fólk var. Hann til dæmis fór alltaf á matsölustaði í úthverfum þar sem mjög fáir voru á. En hann var svo hræddur um að mamma hans dytti í það og yrði þeim til skammar.

Önnur hefur líst því hversu dramatísk tengdafólk hennar er, en þar fá tárin að flakka ef bíllinn er ekki nógu þægilegur eða eitthvað er ekki eins og það á að vera. Þar sem fjölskyldan er stór þá er oft á tíðum einhver ósátt/ur og því miklar tilfinningar sem fá að blossa. En hún lætur það nú líka fylgja sögunni að það er allt frekar fljótt að róast. Ég bara veit ekki hvort ég gæti dílað við grátandi tengdó eða svila.

Þriðja getur lítið sem ekkert talað við sitt fólk, þar sem hún talar ekki tungumálið þeirra, en er ósjaldan vippað upp á eldhúsborð í nudd (hún kann samt vel að meta það)

og sú fjórða á já tengdafólkið hennar býr á annarri plánetu en hún og sögurnar eru alltaf svo furðulega að ég efast um að ég get gert þeim skil í nokkrum setningum.

En allavega tengdafólkið mitt er EKKI svona. Þetta var alveg frábær ferð, krakkarnir okkar féllust í faðma þegar þau hittust (svo líka aðeins ýtt í hvort annað) og allt gekk eins og smurð vél. Ég fékk aldrei nóg af neinum, nema kannski sjálfum mér en það þíðir lítið að kvarta, ég er stökk með mig sjálfa og tíminn flug áfram án allra handavinnu og án nokkurs bloggs.

En þessi póstur átti ekki að fjalla um ferðina sem slíka. Heldur frábært trix sem ég lærði áður en ég fór út.

Þannig er mál með vexti að þegar ég fór til USA í vetur í þrjár vikur og skildi karl, barn og plöntur heima þá þurrkaðist allt upp sem hafði einhvern grænan lit að bera. Karl og barn voru í góðum holdum enda átti ég ekki von á öðru en það fór öðrum sögum af blessuðum plöntunum.

Þær voru svo þurrar og dauðar að Sahara getur skammast sín fyrir lélegt þurka svæði og það besta var að karlinn tók ekkert eftir þessu, jafnvel þó svo að ég benti honum á stöðu mála. Allt fór í ruslið og það var byrjað upp á nýtt.

Eins og glöggir lesendur vita þá er ég afar stolt af tómatplöntunni minn og vildi að hún lifði af þessa tíu daga. Þetta var rætt ögn á kaffistofunni og útkoman var sú að ég skellti vatni í flösku og hvolfdi henni svo í moldina.

Ég hafði ekki mikla trú á þessu en var svo sem til í að prufa, og viti menn, þetta svín virkar, þeir grænu tómatar sem á plöntunni voru eru nú orðnir fagur rauðir og nýjir grænir hafa litið dagsins ljós.
Myndin sem ég tók í flýti um morguninn sem ég fór er kannski alveg sú besta (bjórflaksa og tekið á símann). En þvílík snilld sem þetta trix er, ég bara varð að láta ykkur vita!