Pages

þriðjudagur, janúar 04, 2011

Afmæli í nánd


Það styttist í að frumburðurinn (og ástæða þess að sólin snýst í kringum jörðina) verði tveggja ára. Ég trúi því varla að það eru tvö ár liðin frá því að ég urraði á Halldór þegar hann hvatti mig áfram með þessum ljúfu orðum "svona nú, við klárum þetta fyrir fréttir", svo ljúft eitthvað!

En í stað þess að horfa á September Issue með góðri vinkonu, tók ég upp saumavélina og föndraði smá afmælisskraut.


Ég er ekki ein af þeim sem á fullan skáp af efnis afgöngum, þvert á móti, það er svo allt önnur saga með garn afganga. En þegar ég fór inn í skáp fann ég eitt og annað. 2 bolir sem ég hef lítið sem ekkert notað og verða víst aldrei notaðir hér eftir voru teknir, 2 sængurver sem hafa munað sinn fífil fegri og eitt koddaver sem Halldór kom með í búið voru fórnalömb kvöldsins.

Ég byrjaði á því að teikna skapalón.

Sem ég notaði til að sníða eftir. Hver fáni hefur tvo efnisbúta sem ég klippti eftir og saumaði saman á röngunni. Ég hef heyrt að sumum finnist erfitt að sauma beina línu. Ef þú ert ein af þeim, þá má ég til með að benda þér á að notast við fótinn. Ath, hvernig brúnin á efninu liggur að brún saumavéla fótsins. Þannig er auðveldara að sauma beina línu.

Þegar kemur að því að sauma hornin er best að gæta þess að nálin sé niðri, því næst lyfta fætinum og snúa efninu eftir því sem hentar. Þegar því er lokið er fóturinn settur niður og haldið áfram að sauma (ath klikkið á myndina til að sjá hana stærri). Gætið þess að skilja eftir gat efst á veifunni svo að það sé hægt að snúa flagginu við.
Því næst er gott að klippa hornin ögn til á röngunni svo að hornin líti vel út á réttunni

Þá er að sauma veifuna á réttunni til að hún sé falleg. Hér mæli ég hiklaust með því að notast við brún fótarins til að saumurinn sé beinn.
13 flöggum seinna! Ég átti afgangs skáband sem ég notaðist við til að hengja flöggin á. Með 15 cm millibili saumaði ég hvern fánann fastan á eftir öðrum og fékk fínustu fánalengju til að skreyta íbúðina með. Skemmtilegt, umhverfisvænt og afmælispartýið má byrja!

6 ummæli:

Karen sagði...

Dásamlegt! Þetta verður aðalpartýið í bænum enda mun það standa í næstum sólarhring ;-)
Við eigum bara myndina til góða þegar þú þarft að hvíla lúna fætur eftir veisluhaldið.
Lov jú :-*

Arndís sagði...

Snilldar hugmynd!

Eyrún Elly sagði...

Ótrúlega skemmtilegt! Getur maður ekki bara gert svona til að hafa uppi allt árið um kring? ;)

Annalú sagði...

Ohhhh... lovely!! Mig hefur langað til þess að gera svona svo lengi en aldrei komið mér í það. Núna kannski þegar leiðbeiningarnar eru svona góðar þá kannski drífur maður sig í þetta.... við tækifæri.

Hafið það gott og knús á Högna bráðum afmælisstrák.

Marín sagði...

Hugmyndin er auðvita ekki mín frekar en annað, finnst ég verða að koma því á hreint.

Sá um daginn ódýrari gerðina af þessum fánum, þá var búið að klippa út veifurnar í plastpoka og binda saman toppana. Fínt skraut til að hafa úti við.

Þetta eru auðvita "allra daga flögg" alltaf við hæfi að hafa fallegt í kringum sig.

Dúna sagði...

Vá vá...var að sjá þetta núna. Þetta er æði.