Pages

miðvikudagur, september 29, 2010

Prjónað blóm og gesta blogg

Það er búið að vera gaman að skella hérna inn einu og einu föndri sem ég hef verið að gera. Mun skemmtilegra en ég hélt að þetta yrði. Það er líka ágætt að halda hugmyndum og framleiðslu á einum stað. Nú er Z-an orðin að alvöru bloggi því að í fyrsta sinn er gesta bloggari með föndur og það ekki föndrari af verri endanum. Þetta er enginn önnur en hún mamma mín!

Mamma er frábær handavinnu kona, algjör listakona, hún hefur saumað og prjónað og skapað frá því að ég man eftir mér. Hún er ein af þessum konum sem lét okkur systkinin mála á gardínurnar okkar sjálf í herbergið og saumaði jólafötin á okkur.

Um daginn hittust þær vinkonurnar og voru að prjóna blóm sem ein í hópnum hafði pikkað upp í kassaröðinni í Bónus. Já hún í alvöru! Hún stóð í röðinni og sá þetta líka fína blóm og starði svo lengi á það og náði að telja það út. Ég veit ekki hvort blómið lítur 100% eins út, en það er allavega mjög fallegt og mamma er búin að sitja sveitt og prjóna og prjón. Blómin verða nefnilega gjöf til kennara sem eru í alþjóðlegu samstarfi með mömmu í skólanum hennar.

Mamma var svo ljúf að rumpa upp kennslumyndbandi á blóminu og hér kemur það.

Svona lítur blómið út og uppskriftin hér að neðan:

Blóm

Lopi light og prjónar no. 3 ½

1. umf. Fitja upp 6 l

2. umf. *taka óprjónaða l. fram af og prjóna 2 l. slá uppá og prjóna 3 l.

3. umf. taka fyrstu l. óprjónaða fram af prjóna sl. út prjóninn

4. umf. taka óprjónaða l. fram af og prjóna 2 l. slá uppá og prjóna 4 l.

5. umf. eins og 3. umferð

6. umf. taka óprjónaða l. fram af og prjóna 2 l. slá uppá og prjóna 5 l.

7. umf. eins og 3. umferð

8. umf. taka óprjónaða l. fram af og prjóna 2 l. slá uppá og prjóna 6 l.

9. umf. eins og 3. umferð

10. umf. taka óprjónaða l. fram af og prjóna 2 l. slá uppá og prjóna 7 l.

11. umf. eins og 3. umferð

12. umf. taka óprjónaða l. fram af og prjóna 2 l. slá uppá og prjóna 8 l.

13. umf. *fella 6 l. af og prjóna sl út prjóninn

14. umf. * 2. umf. – 13. umf.*

Þá eru komnir tveir tindar.

Endurtaka þetta þar til komnir eru sex tindar. Þá eru 12 l. á prjóninum. Fella af.

Þá er komin lengja með 6 tindum.



Gangið frá öðrum endandum og saumið lengjuna saman í hring, passið að gatamunstrið sé í einni línu.

Hafið tvöfaldan þráð og stingið í gatalínuna upp og niður og dragið varlega saman með lopanum.

Gangið frá og festið nælu á bakhliðinni eða saumið blómið fast í peysuna


















Svo má auðvita notað stærri prjóna og grófara garn og þá verða blómin


stærri og groddaralegri, nú eða öfugt og þá verða þau fín og lítil... í raun má allt.
En þjóðlegust eru þau úr lopanum!

Takk mamma fyrir þetta :)

2 ummæli:

Unnur sagði...

Jæja hvernig væri nú að koma til sweden og kenna mér aðeins að föndra. Sit hérn græn af öfund yfir góssinu þínu....

Anna Lú sagði...

Sætt blóm! Gerir alla hluti sæta að bæta svona krúsídúllu á þá!