Pages

laugardagur, desember 31, 2011

Gleðilegt árið

Megi gleði og glimmer fylla árið 2012




Að vísu er lítið um glamúr í augnablikinu hjá mér, er sveit yfir fyllingunni, en það er ekkert sem smá sturta og ögn af sápu fær ekki breytt.
Gleðilegt nýtt ár!

miðvikudagur, desember 21, 2011

kanilsnúðar á aðventunni

Ég er búin að vera afar myndó á aðventunni við ýmiss húsmæðraverk en ekki jafn iðin við að pósta því hér inn. Í gær henti ég í kanilsnúða sem er alveg nauðsynlegt fyrir jólin. Það sem gerir snúðana mína góða (eða það sem mér finnst gera snúðana mína góða) er að ég bæti við marsipan við kanillsykurinn. Ummm love it.

En svo kemur að því að skera snúðana og þá lendir maður í þessu hér:

Ekki mjög snúðalegt og fallegt. En það er til ráð við þessu sem er svo einfalt að það er næstum of einfalt. Með því að skera deigið með tvinna verða þeir miklu, miklu fallegri.

Snúðarnir koma úr sama degi, en mér finnst þessir fallegu bragðast örlítið betur. Svo skemmir ekki fyrir að bræða smá súkkulaði ofan á þá eða vefja þá upp á móti hvor öðrum og gera hjörtu eins og sést hér

Yummý!

þriðjudagur, desember 13, 2011

Skírn

Við skírðum laugardaginn fyrir fyrsta í aðventu.
Nafnið sem fyrir valinu varð er Heimir. Nú eigum við fallegan Högna og fallegan Heimi.

Ég er rík kona (stelpa)
Fyrir 10 árum heklaði ég þennan skírnarkjól þegar Ína átti von á Örnu. Síðan þá höfum við systur skírt börnin okkar í þessum kjól. Mér þykir voðalega vænt um það.

Skírnaveislan var einföld og falleg heimaskírn. Bara nánasta fjölskylda mætti og Sr. Jón Dalbú sá um athöfnina. Mjög notalegt.

Ég gerð nákvæmlega ekkert fyrir athöfnina nema panta mat. Fiskisúpa frá Fylgifiskum og kaka frá Namm á Facebook. Hún var blá og falleg.

laugardagur, desember 10, 2011

Aðventudagatal

Í minningunni fékk ég aldrei súkkulaðidagatal þegar ég var lítil. Mamma man sennilega eitthvað annað. En mamma saumaði aftur á móti mjög flotta jólasokka þar sem litlu góðgæti var lumað í hvern sokk 24 dögum fyrir jól og var miklu fallegra en súkkulaðidagatal. Mig langar mikið að prjóna svona vettlingadagatal eins og sést hér, en það verður gert einverntíman þegar ég hef meiri tíma en núna með barn á brjósti. Eins hefur Ína siss lagt inn pöntun þannig að ég mun þá víst prjóna 48 stk af vettlingum svo það er spurning hvort ég leggi einhverntíman í það.

Ég lagði þó í að gera dagatal handa Högna í ár. Það var gert svolítið á síðasta snúningi eða 2. des og gripið það sem til var á heimilinu, það er því smá "takí" sem er bara sætt þegar maður er tveggja að verða þriggja.

Hvítmálaðar birkigreinar og litlir heimaútbúnir pakkar (sjá hvernig þeir eru gerðir hér að neðan). Pappírinn fékk ég í Tiger á lítið, sem er ekki verra.

Það er mikill spenningur að opna pakkann á hverjum degi og smá erfitt að skilja að maður má bara opna einn pakka í einu. Ég ákvað að hafa ekki númeraða pakka, það má bara velja sér þann pakka sem maður vill hverju sinni. Stundum eru súkkulaði rúsínur, stundum hlaupbangsar...

...í þetta sinn var "apanammi" eða þurrkaðir ávextir. Allt jafn töff að mati hr. Högna.

DIY jóladagtal

Í fyrra fylgdist ég með jóladagatali Eyrúnar á Fimmtudagsföndrinu, en hún er því miður hætt að blogga. Allavega í langri pásu. Og þá sá ég þessa kassa sem mér fannst svo sætir.

Hún kenndir hér hvernig hægt er að brjóta þá saman, en það er einn hluti sem vafðist fyrir mér og ég ætla því að athuga hvort að ég geti gert þetta skiljanlegra. Það má allavega reyna það.

Til að byrja með þarf 8 ferhyrninga, ég notaði 10x10 cm.

Þá er að byrja að brjóta blaðið til helminga.
Þá næst er önnur hliðin brotin til helminga, svona!
Þá er blaðið brotið þvert til helminga (mikið um helminga enn sem komið er)
Þá er hægra neðra hornið brotið til miðju
og vinstri hliðin brotin horn í horn (sjá punktalínu) þessi hluti þvældist fyrir mér.
Þá lítur blaðið svona út.

þá er hornið sem stendur út í loftið brotið undir botninn og fyrsta hornið í kassanum er tilbúið
og það lítur svona út. Þá er að brjóta hin 7 hornin út.
Þá þarf að flétta hornunum saman. Athugi að ef botnin er ekki fléttaður saman (þe hornunum ofið saman) þá verður kassinn mjög laus í sér. Þetta tekur smá þolinmæði til að byrja með en eftir 24 kassa verður þetta lítið mál.

Og kassinn er tilbúin með loki. Líka hægt að nota til að pakka inn litla fallega gjöf.

föstudagur, desember 02, 2011

Ungbarna peysa úr silki

Þegar Högni fæddist prjónaði ég nokkrar ungbarnapeysur. Ég hef nokkrum sinnum sagt frá því og engin þeirra var nógu góð. Það var ekki fyrr en ég var gengin framyfir að rétta peysan lét sjá sig. Hún var prjónuð úr fínugerðu silki og það var svo mikið á keflinu að ég prjónaði djöflahúfu, vettlinga trefil og átti afgang... ohh hvað ég var ánægð.

Svo þegar Lilli litli fæddist þá átti að endurtaka leikinn. Sama garn var keypt en auðvita varð peysan að vera önnur. En stefnt var á að endurtaka leikinn og hafa húfu, vettlinga og trefil í stíl. Uppskriftina fann ég í safni Saumklúbbsins en peysan heitir þar "Ofur lítil ungbarnapeysa".

Það var heldur meira garn sem fór í þessa peysu og því var ekkert eftir til að prjóna aukahlutina og þvílíkt svekkjelsi. Seinni peysan var líka ögn stærri en sú fyrr og getur Lilli litli því enn notað hana, þrátt fyrir að vera orðinn full sex vikna. Málið er bara ég er ekki eins hrifin af seinni peysunni og fylgihlutirnir voru prjónaðir (líka úr silki) en allt annar litur og þetta passar ekki jafn vel saman. Hálf svekkjandi allt saman.

En hér eru þeir bræður saman. Báðir á leið heim af spítalanum. Annar allur í stíl, enda fyrsta barn, hitt ekki alveg jafn mikið í stíl en alveg jafn sætur.

miðvikudagur, nóvember 23, 2011

Kerti í rökkrinu

Það er fátt betra en að kúra í rökkrinu. Þessa dagana hef ég fullkomna ástæðu til að kúra hjá litla kútnum mínum. Himneskt!

...og þá er fátt betra en að kveikja á nokkrum kertum og allt verður ljúfara.

Þar sem ég á erfitt með að henda hinu og þessu á ég nóg af barnamatskrukkum frá því að frumburðurinn var nærri tannlaus. Ég fann þrjár sem allar voru af sömu stærð og gerð, og þreif límið af þeim með naglalakka hreinsi. Svo fann ég blúndu ofan í skúffu sem ég skellti utan um. Upphaflega ætlaði ég að hekla blúnduna, en tíminn sem ég hef þessa dagana í föndur er ekki of mikill svo að ég lét blúnduna duga. Kertin fást svo í Tiger á lítið sem ekkert! Ódýrt, hómý og fallegt!

sunnudagur, nóvember 20, 2011

Fyrsta tilraun; Kaðlaprjón

Jæja mér tókst það loksins. Tókst að fá frumburðinn til að klæðast peysunni sem ég prjónaði á hann í haust og þar að auki að ná af honum mynd. Hann er að vísu í náttfötunum innan undir og þetta er tekið seint um kvöld. En mynd er mynd og ég má vera ánægð með að ná fleiri en einni mynd af honum í peysunni (þarf að ala betur upp í honum Zoolanderinn).
Peysan er úr Prjónablaði Tinnu. Hann fékk að velja peysuna sem ég prjónaði á hann, en á myndinni heldur krakkinn sem sýnir peysuna á priki. Högni vildi helst frá prikið líka (ef til vill hefði prikið dugað og ég getað sleppt peysunni) en peysuna fékk hann, en ekkert prik.
Þetta er fyrsta kaðlapeysan sem ég prjóna og hún tókst alveg ágætlega. Hún er heldur stór á hann eins og er, en það er bara betra, hann sprettur eins og arfi þessi krakki. Nú langar mig mikið til að prjóna á pabbann eins og líka á Lilla litla.Garnið sem ég notaði fékk ég í Rúmfatalagernum og heitir Sandnes Garn Alpakka og er svakalega mjúkt og flott (og er sko ekki ódýrt).

Það var ótrúlega auðvelt og skemmtilegt að prjóna kaðla hefði ekki trúað því. Nú verða sko prjónaðir kaðlar hér eftir :)

þriðjudagur, nóvember 15, 2011

...svo koma jólin

Það styttist í skírn hjá okkur og nafnaleitin er í hámarki. Spurning hvað verður fyrir valinu? Úff þetta er ekkert smá flókið. Við ætlum að skíra laugardaginn 26. nóv degi á undan fyrsta í aðventu. Ég var að átta mig á því hvað það er í raun stutt í jólin.

Ákvað að kíkja á Pinterest (af því ég fer svo sjaldan þangað inn eða þannig) og fá smá jóla hugmyndir.

Þegar ég var lítil fékk ég aldrei súkkulaði dagatal (og það var fátt sem ég þráði meira en það, þá) heldur föndraði mamma dagatal og við fengum svo litlar gjafir. Ég held meira að segja að við höfum stundum skipt dögunum á milli okkar, við systkinin, en við vorum þrjú. Ég var eitthvað að barma mér með þetta og Halldór fannst ég nú ekki hafa átt erfiða æsku. Hann þurfti að "þola" það mun verr, hann vill meina að stundum hafi hann bara fengið dagatal með Jesú-myndum. Ég verð að segja að ég er ekki beint að kaup það, allavega ekki miða við hvernig tengdó dekrar við mína syni.

Nema hvað, ég mun pína mín börn líkt og mamma píndi mig og systkini mín og föndra dagatal.

Pinterest gaf mér þessar hugmyndir:



Ef maður hefur nógan tíma væri ekki leiðinlegt að prjóna 24 vettlinga



Dagatal úr tómum klósettrúllum. Einfalt og sniðugt.



Nú er komið notagildi fyrir alla sokkana sem koma einir út úr þvottavélinni.







Source: flickr.com via Marín on Pinterest



Mjög sætt!

Source: flickr.com via Marín on Pinterest



Einfalt og fallegt



Fyrir föndurlýsnar

Source: tumblr.com via Marín on Pinterest



Ótrúlega einfalt og fallegt



Önnur sokkaútgáfa



Fyrir saumakonurnar

mánudagur, nóvember 14, 2011

Húfutetur og sokkaleistar

Jæja þá er komið að því. Það er ekki eins og það séu ekki teknar myndir af litla manninum. Þær eru kannski ögn færri en af stóra bróður hans á sínum tíma, en það er alveg smellt af honum. Tíminn til að grúska í þeim er bara svo miklu minni.

Og handavinnutíminn er sama sem enginn. En þar sem hann lét bíða eftir sér í 15 daga þá hafði ég smá tíma til að fitja upp á hinu og þessu.

Þegar bróðir hans kom í heiminn. Þá prjónaði ég eitthvað um 5 heimferðadress á hann og ekkert var nógu gott, nema það allra síðasta. Það sama var upp á teningnum núna, en ég var samt aldrei 100% ánægð með neitt. Þetta þurfti að vera svo SVAKALEGA flott :)

En ég prjónaði fína djöfla húfu á snúðinn og sokka í stíl úr silki. Í dag sé ég eftir að hafa ekki prjónað peysu úr þessu sama garni, því liturinn er mjög fallegur og svo er þetta svo mjúkt.

Húfan er prjónuð í hring og því ekki klassíska garðaprjóns-djöflahúfan. Uppskriftina fékk ég einhvertíman í Nálinni þegar hún var á Laugarveginum. Uppskrift af sokkunum er að finna í bókinni Sokkaprjón sem ég skrifaði um hér.



þriðjudagur, nóvember 01, 2011

tvær vikur

Í dag eru tvær vikur frá því að Lilli litli kom í heiminn og ótrúlegt hvað tíminn flýgur. Á hverjum degi velti ég fyrir mér hvort hann sé orðinn of stór fyrir "ný fæddu" myndirnar sem ég á eftir að taka.

Eins þarf ég að vera dugleg að taka myndir af honum í hinu og þessum múnderingum sem ég prjónaði á hann áður enn hann fæddist. Ekki næstum eins gaman að taka myndir af flíkum sem enginn er í. Sammála?

En þangað til ég fer í dúkkuleik og klæði hann upp í hin og þessi dressin fá þessar tásur að prýða fyrsta póstinn.

Njótið, ég vissulega geri það!