Pages

mánudagur, júlí 18, 2011

Unnur og Bokki eru hjón, kyssast upp á títiprjón

sumarið er svo frábær tími! Ég bara nenni ekki að sitja inni og pikka á tölvuna, ekki einu sinni á kvöldin. En það er ekki þar með sagt að ég sé ekki með neitt á prjónunum... nei fýkillinn passar sig á því!

Um daginn prjónaði ég peysuna Unnur og bókinni Fleiri Prjónaperlur. Það er svolítið síðan ég kláraði hana en ég hafði bara aldrei fundið rétta tímann til að taka sætar myndir af prinsinum (sem að vísu tekur ekki í mál að vera kallaður prins, hann er bara kóngur!) í peysunni. Það er líka með þessa gaura sem eru tveggja og hálfs að þeir hafa skoðanir á því í hverju þeir eru svo að peysan fékk að bíða þar til rétt tækifæri gafst til að taka myndir.

Tækifærið gafst loks í vikunni þegar við skruppum vestur og sigldum inn í fallegu eyjuna Vigur. Eins og sönnum sjómönnum sæmir þá var lopapeysan tekin fram og fjörið hófst. Farþegarnir urðu þreyttir á leiðinni út í eyju bara á því að horfa á Högna hlaupa fram og aftur og syngja hástöfum "113 vælubíllinn, víú víú víú víú" bróðurpart ferðarinnar. Held að hann hafi samt ekki truflað ... mikið.

Ástæðan fyrir að þessi peysa varð fyrir valinu er sú að ég hafði áður prjónað Bokka upp úr bókinni Prjónaperlur sem ég var svo svakalega ánægð með og Unnur er svolítið stolin útgáfa af þeirri peysu. En ég held að ég verði að viðurkenna mér finnst Bokki fallegri. Það er eitthvað svo einfalt og sveitó við Bokka.


Bæði Bokki og Unnur eru prjónaðar úr einföldum plötulopa sem er alveg frábært efni til að vinna úr. Unnur er prjónuð fyrir 3-4 ára og mér finnst hún heldur of stór. Hefði viljað hafa hana ögn minni og passlegri.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Báðar svo fallegar, en sammála, Bokki er fallegri! Ína.

Nafnlaus sagði...

sammála, báðar æðislegar. Spurning hvort litavalið hafi úrslitaáhrif? ;)
Erla